Aðkoma Lagnatækni að undirbúningi við gerð þessa Hátækniseturs hófst á haustdögum 2012. Á þeim tíma var verið að huga að staðsetningu fyrir þessa starfsemi og undirbúa val á erlendum aðilum til að sjá um forhönnun verkefnisins.

Það má segja að aðkoma okkar að verkinu hafi verið mjög fjölbreytt, en í grunninn erum við hönnuðir loftræsi- og lagnakerfa og sjáum um allt eftirlit, úttektir og prófanir sem þeim tengjast.

Á forhönnunarstiginu unnum við með þýskri ráðgjafarstofu M+W að gerð forhönnunar og svo tókum við við verkum og frekari vinnslu á fyrirkomulagi á framleiðslu- og rannsóknarsvæðum og þá í samvinnu við stjórnendur Alvotech.

Meðal þess sem við sáum um var uppbygging og fyrirkomulag á því sem við köllum „Tækniheim“ þessa hátækniseturs.

Tækniheimurinn er allt-umliggjandi rými sem myndar samfellda heild frá dýpsta kjallara og upp í gegnum allar fjórar hæðir byggingarinnar. Þetta fyrirkomulag, að hafa samliggjandi rými er nánast grundvallaratriði því þannig má komast að rekstri og viðhaldi allra tæknikerfa án þess að fara inn á framleiðslu- og rannsóknarsvæði.

Stærsti hluti framleiðslusvæða og hluti rannsóknarsvæða eru skilgreind sem svokölluð hreinrými, eða um 3.000 m2. Hreinrýmin eru í mismunandi flokkum og fer sú flokkun eftir mikilvægi og viðkvæmni starfseminnar. Þessi hreinrými er byggð úr þar til gerðum einingum sem koma frá þýska fyrirtækinu Elva-tec en Lagnatækni sá um öll tæknileg samskipti um gerð þessara hreinrýma en segja má að þau myndi „hús í húsi“ innan byggingarinnar.

Umfang tæknikerfa er mikið bæði hvað varðar fjölbreytileika og allt umfang. Umgjörð um rannsóknir og svo framleiðslu „aseptískra“ stungulyfja með lífrænum aðferðum krefst nákvæmrar stjórnunnar á umhverfisaðstæðum. Þar hafa loftræsikerfin mikla þýðingu.