Aðkoma Lagnatækni að vinnu fyrir Actavis á sér langa sögu og byrjaði á fyrirrennara þess fyrirtækis, Deltu þegar ný lyfjaverksmiðja var reist í Hafnarfirði árið 1996.

Allar götur síðan þá hefur fyrirtækið unnið fyrir lyfjaframleiðandann hér heima og erlendis. Í Hafnafirði hefur framleiðslueiningin verið stækkuð tvisvar sinnum, fyrst árið 2005 og síðan árið 2010. Þá var byggð ný rannsóknarstofubygging árið 2006.

Lagnatækni hefur komið að hönnun, ráðgjöf, gangsetningu, stillingum og prófunum á kerfum hjá lyfjaverksmiðjum Actavis víða um heim, allt frá því að koma einni af stærstu töfluframleiðslueiningum samsteypunar í gegnum gangsetningu og að ráðgjöf við rannsóknareiningar á Indlandi.

Þó er stærsta og mesta tenging Lagnatækni við lyfjaverksmiðju Actavis á Möltu, sem í dag er orðin ein stærsta lágraka framleiðslueining samsteypunnar. Á Möltu er heitt og rakt loftslag stóran hluta ársins og því þarf umfangsmikinn tæknibúnað til að þurrka loft þannig að lágraka aðstæður séu tryggðar. 

Aðkoma Lagnatækni á Möltu hófst árið 2001 með enduruppbyggingu á eldri verksmiðju. Í dag eru á þriðja tug loftræsikerfa er þjóna verksmiðjunni og heildar loftmagn innblásturs um 250.000 rúmmetrar á klukkustund. Kælikerfin sem byggð hafa verið eru nærri 5 MW og eru að stærstum hluta notuð til þess að þurrka loft.